Skip to main content

Rannsóknastaða hjá Elkem Ísland

Elkem Ísland og Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafa komist að samkomulagi um stofnun rannsóknastöðu Elkem við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Ungur efnafræðingur, Sunna Wallevík, verður fyrsti styrkþeginn í stöðu sem ráðgert er að verði til þriggja ára. Hún mun hafa meginaðstöðu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands en jafnframt hjá Elkem. Styrkþegi mun njóta tækjabúnaðar og aðstöðu hjá Nýsköpnarmiðstöð og Elkem. Framlag Elkem vegna stöðunnar er að verðmæti um 40 milljónir kr. á þremur árum.

Á myndinni að ofan eru frá vinstri, Gestur Pétursson, forstjóri Elkem Ísland, Ragnheiður Elín Árnadóttir, nýsköpunarráðherra, Sunna Ó. Wallevík og próf. Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við það tækifæri þegar skrifað var undir samninginn um rannsóknastöðuna. 

Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar:  „Þetta eru einkar gleðileg tímamót fyrir okkur. Ljóst er að við erum í fararbroddi í heiminum varðandi þekkingu á kísil og kísilmelmum. Þegar tekið er tillit til stefnu okkar og vinnu á sviði endurnýtingar og fullvinnslu í orkuiðnaðinum, verður til þekkingargrunnur sem getur leitt af sér nýsköpun á breiðu sviði. Okkur er ljóst að Elkem kann að meta þetta og því er komið að þessum tímapunkti. Sunna Wallevík er vel að þessu komin, stóröflug tæknivísindakona sem spennandi verður að fylgjast með í náinni framtíð.“ 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur unnið að ýmsum lausnum í umhverfismálum efnisiðnaðar hérlendis. Í þessu augnamiði hefur stofnunin og sérfræðingar hennar, undir forystu Sunnu Ó. Wallevik, m.a. komið að nýtingu úrgangsefna og betri nýtingu hráefna í kísilmálmiðnaðinum. Stefna Nýsköpunarmiðstöðvar var sett fram í ritinu „Grænkun atvinnulífsins“ frá 2014, rituð af Þorsteini I. Sigfússyni, forstjóra.

Elkem Ísland hefur lagt metnað sinn í að starfsemi fyrirtækisins sé í sem mestri sátt við umhverfið og sitt nánasta samfélag. Markvisst er unnið að því að draga úr áhrifum á ytra umhverfi og það felur í sér að fyrirtækið þróar og fylgir stöðlum um bestu fáanlegu framleiðsluaðferðir, þar sem markmið eru sett og árangur vaktaður.