Skip to main content

Undirritun viljayfirlýsingar um uppbyggingu græns iðngarðs á Grundartanga

Þann 11. maí síðastliðinn skrifuðu eigendur Þróunarfélags Grundartanga og fyrirtækin sem starfa á Grundartangasvæðinu undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu græns iðngarðs með hringrásarhugsun á Grundartanga og fór viðburðurinn fram hjá Norðuráli á Grundartanga. Í uppbyggingunni felst að mótuð verður fyrirmyndar sjálfbærniumgjörð fyrir svæðið og unnið að uppbyggingu hringrásarhagkerfis með bættri fjölnýtingu auðlinda og innviða. Verndari verkefnisins er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Lágmörkun umhverfisáhrifa og aukin hagsæld

Fyrir liggur greining KPMG á tækifærum Grundartanga sem græns iðngarðs með hringrásarhugsun og leiðir hún í ljós mikla möguleika Grundartanga á þessu sviði. Áætlað er að ávinningur vegferðarinnar sé margþættur fyrir hagaðila svæðisins og muni skila sér m.a. í lágmörkun umhverfisáhrifa og betri nýtingu hráefna. Einnig mun hún styrkja samkeppnisstöðu Grundartanga sem atvinnusvæðis og þannig auka hagsæld ásamt því að styðja við aðgerðaáætlanir stjórnvalda í loftslagsmálum.

Leiðandi á heimsvísu

Grundartangi sem grænn iðngarður stefnir á að verða leiðandi á heimsvísu enda eru allar forsendur til staðar. Meðal verkefna framundan er stofnun samstarfsklasa aðilanna á Grundartanga og annarra hagaðila og fjölnýtingaverkefni s.s. stofnun hitaveitu sem nýtt getur varma frá Elkem og Norðuráli. 

Stærsta iðnaðarsvæði Vesturlands

Á Grundartanga er góð hafnaraðstaða og þar er langstærsta iðnaðarsvæði Vesturlands þar sem starfa um 1.100 manns að jafnaði auk þess sem rekja má um 1.000 afleidd störf til starfsemi svæðisins.